154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:34]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og við var að búast fór hann víða og auðvitað ástæða til enda ræðum við hér fjárlagafrumvarpið. Það sem ég hjó eftir í hans málflutningi og fannst kannski standa upp úr eru þessar rangfærslur í heilbrigðismálum. Við höfum aldrei sett meiri fjármuni í heilbrigðismál heldur en akkúrat nú. Við erum að auka fjármagn til heilbrigðismála einmitt í þessum fjárlögum, eins og hefur verið gert reglulega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Við erum að stórefla heilbrigðiskerfið, við erum búin að semja við sérfræðilækna, við erum að einbeita okkur m.a. að heilsugæslunni. Hún er að sjálfsögðu að fá aukningu. Getur þingmaðurinn ekki verið sammála mér um að við séum á réttri leið?

Einkarekstur er m.a. einn af þeim þáttum sem tekist hefur verið á um í umræðunni um heilbrigðismálin og það væri áhugavert að fá að vita hvar Samfylkingin stendur, m.a. varðandi einkareksturinn og hvort hún sé einhuga í þeim efnum.

Það sem stendur upp úr eru rangfærslurnar, frú forseti, og að mér heyrist einhvers konar tilraun til að gera lítið úr því hversu vel okkur gengur að efla heilbrigðiskerfið. Við erum á þessari vegferð og getur þingmaðurinn ekki tekið undir það að við erum einmitt að stíga skref í rétta átt á hverju ári í að efla heilsugæsluna, heilbrigðiskerfið og velferð fólks?